Þegar afi féll fyrir eigin hendi

562557-bigthumbnail
Núna 10. September var Alþjóðadagur sjálfsvígsforvarna. Eins og gefur til kynna er þetta dagur tileinkaður forvörnum vegna sjálfsvíga víða um heim og hér á landi er hann einnig helgaður minningu þeirra sem hafa fallið af eigin hendi.
Þar sem að þessi dagur var núna um daginn þá langar mig til að koma frá mér stuttri sögusögn frá þeim degi sem afi minn tók eigið líf, þegar hann var 65 ára gamall.

Það var maí árið 2008. Ég man..
Ég var að koma úr sturtu þegar ég heyri mikil læti í sjúkarbíl. Ég vafði utan um mig handklæðið í flýti, dreif mig framm og kíkti út á pall. Þáverandi kærasti minn og Gaui bróðir fylgdu fast á eftir. Sjúkrabíll og lögreglubílar brunuðu framhjá götunni okkar með látum og þutu upp á litla Hamar.
Ég varð óttaslegin og það fór um mig hrollur. Hvað var í gangi?
Við stóðum þarna úti, horfðum á eftir bílunum og komum síðan auga á það. Það hafði farið bíll niður af kambabrúninni.
Ó Guð! Ætli þetta sé einhver sem ég þekki? Í stressi hringdi nokkur símtöl til að athuga hvort að það væri ekki örugglega í lagi með fólkið mitt.
Það leit út fyrir að svo væri.
Ég fer inn í innsta herbergið í húsinu til að sjá betur það sem hafði gerst. Það var erfitt að sjá almennilega hvað var í gangi. Ég tók kíkinn sem var inni i stofu. Það var dökkblár eða svartur bíll í klessu fyrir neðan kambana. Ég gat ekki séð hvernig bíll þetta var. Sem betur fer kannski.

Það fór ónotaleg tilfinning um mig alla en ég ákveð að klæða mig því ég ætlaði mér að fara út í búð að kaupa eitthvað að borða. Mamma og pabbi voru úti á Spáni svo að það var undir okkur systkinunum komið að sjá til þess að eitthvað ætilegt væri að finna í ísskápnum.
Það var grátt yfir öllu og smávægilegur úði þegar ég labba út í bíl. Ég sé Ólöfu, systir mömmu og manninn hennar Stjána labba í átt að húsinu okkar. Þau voru óvenju alvarleg. Ég heilsa þeim og sé svo að presturinn er með þeim.
Oh nei! Ég sný mér við og labba aftur inn. Ég finn kökkinn í hálsinum og veit að presturinn er kominn til að segja mér eitthvað slæmt.
Nú vissi ég að það sem gerðist í Kömbunum tengdist mér. Einhver sem ég þekki er dáinn. Ég labba inn í stofu og horfi á prestinn koma inn.
Hann snýr sér að kærasta mínum og segir honum að afi hans sé dáinn.
Ha? Það gat ekki passað! Hvaða vitleysa er þetta? Eftir óþæginlegann vandræðagang áttar presturinn sig á því að það var ekki rétt. Það var afi minn sem var dáinn. Það var hann sem hafði keyrt niður af kambabrúninni. Ég fann hvað ég dofnaði upp og hvernig gráturinn braust út. Ég hafði ekki hringt í hann áðan til að athuga með hann. Afhverju hafði mér ekki dottið hann í hug? Ég skammaðist mín fyrir það. Svo var það annað sem átti hug minn allann. Þetta var ekki slys. Ég fylltist reiði. Hvernig gat hann gert þetta!

Ég man að Ólöf tók utan um mig og ég hágrét. Restin af deginum var í móðu. Eldri bræður mínir og mágkonur mínar komu úr Reykjavík og voru okkur tvíburasystkinunum til halds og trausts. Mamma og pabbi áttu ekki flug heim frá Spáni fyrr en eftir nokkra daga og það gekk ekkert að flýta fluginu. Það var ótrúlega erfitt að hafa þau svona langt í burtu.

Presturinn bauð okkur að koma upp í kirkju, þar sem að við systkinin gátum verið með smá bænastund. Við löbbuðum saman inn í kirkjuna og ég sá að það stóð einhvers skonar sjúkraflutningarúm með hvítu yfirbreiddu laki við altarið. Það lá einhver undir lakinu. Það fór um mig kuldahrollur. Þetta var eitthvað svo óraunverulegt. Við settumst á einn kirkjubekkinn og ég man óskýrt hvað gerðist næst. En ég man þó að okkur var boðið að sjá hann og kveðja. En vorum vöruð við það að hann gæti verið svolítið marinn og illa farinn. Ég hafði það ekki í mér að kíkja undir lakið. Ég vildi frekar muna eftir afa eins og hann hafði alltaf verið.

Það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég sá hann síðast. Pólska konan var búin að búa hjá honum í einhvern tíma og hafði verið búin að taka húsið í gegn. Föt og hlutir frá ömmu voru farnir að hverfa. Við fjölskyldan vildum geta haldið í vissa hluti sem gáfu okkur tilfinningalegt gildi og minntu okkur á elsku ömmu. Eftir að hafa rætt það oft við afa létum við verða að því að sækja þá muni. Hann hafði sagt okkur að hann vildi það sjálfur.

Það var óþægilegur dagur, við höfðum kíkt við hjá honum til að sækja einhverja muni. Svo var komið að því að kveðja og ég man að ég horfði á afa. Hann settist niður og virtist finnast þetta erfitt. Ég átti svo oft erfitt með að skilja hann og hvað fór um hugann hans. Eftir að amma dó, þá var hann ekki eins afalegur lengur. Það var allt orðið svo óþæginlegt eitthvað. Hann drakk og reykti mikið, var kominn með pólska kærustu og stóð illa fjárhagslega. Ég horfði á hann þar sem hann sat og virtist vera orðinn útkeyrður á öllu saman. Ég hugsaði með mér hvort ég ætti bara að kveðja og fara út í bíl. En ég fann eitthvað svo til með honum. Ég gekk til hans og tók utan um hann og kvaddi hann. Svo sá ég hann aldrei aftur.

Dagarnir eftir að hann hafði tekið eigið líf voru svo sárir, það var svo mikið af spurningum sem vöknuðu og ég vissi að fengust aldrei svör við.
Ég fann fyrir mikilli reiði. Mér fannst hann sjálfselskur.
Ég var svo lengi reið og sár út í afa fyrir að hafa farið þessa leið. Mér fannst hann vera vondur við þá sem stóðu honum næst.

En eftir því sem árin hafa liðið finnst mér ég hafa náð betri skilning á þessu.
Ég sé það þannig að þegar fólk grípur til þessara aðgerða þá finni það fyrir algjöru vonleysi og hjálparleysi við óbærilegar aðstæður eða sálarkrísu. Hvort sem að þær eru langtíma eða skammtíma. Þá telji fólk að sjálfsvíg sé eina og fljótlegasta leiðin til að losna undan bugandi sársaukanum. Töfralausnin. Það sér ekki neina aðra leið. Heildarmyndin verður bjöguð og tímabundin, örvæntingafull þörf til að grípa til aðgerða getur þá beint sjónum til sjálfsvígs.

En sjálfsvíg er ekki lausn né valkostur, heldur endanlegt og banvænt. Sú sálarangist sem herjar á einstakling það augnablik sem að sjálfsvígshugsanirnar koma upp, munu vafalaust líða hjá eða minnka.
Því er nauðsynlegt að tala. Tala við góðan vin, skyldmenni eða fagfólk.
Hringja í hjálparsíma Rauða Krossins 1717 sem er opinn allan sólahringinn. Því lausnin felur í sér að binda enda á sársaukann með því að taka skrefið að bjartari framtíð. Halda baráttunni áfram og leita leiða með hugrekki. Það skiptir svo miklu máli, því sérhvert mannslíf skiptir máli.

Ég vill trúa því að afi væri enn á lífi í dag og hefði fengið tækifæri til að kynnast öllum fallegu langafabörnum sínum ef hann hefði leitað sér hjálpar. Ef hann hefði talað, þegið faglega aðstoð og fylgt henni eftir.
Hann átti við áfengisvanda að stríða og eflaust geðræn vandamál líka þar sem hann vann aldrei almennilega úr áföllum sem hann hafði lennt í yfir ævina. Hann var þröngsýnn og eflaust fordómafullur á sálfræðilegar lækningar. Það stóð í vegi fyrir honum.

Það er svo mikilvægt að taka skrefið, tala og losa um flækjuna sem hefur safnast innra með manni, finna trúna á bjartari dögum og þyggja aðstoð til að komast á rétta braut.