Hlustaðu inn

its-in-me.jpg

Mikið finnst mér yndislegt hvað viðhorfið til innri vinnu er alltaf að verða eðlilegra meðal okkar, enda eru mörg okkar farin að ná því hvað hún er mikilvæg.

Það er svo nauðsynlegt að hlusta á þær tilfinningar sem við finnum fyrir því þær eru að senda okkur skilaboð. Allar þýða þær eitthvað og ef við köfum djúpt í þær og hlustum á þær. Lærum að skilgreina þær. Þá skiljum við betur hvað er að gerast hjá okkur. Það er ákveðið verkefni að leysa úr þeim. Allar tilfiningar eru eðlilegar. Þær koma og fara af ástæðu.

Ef við afneitum þeim, hlustum ekki á þær og reynum að ýta þeim frá okkur.. þá magnast þær og verða háværari og fyrirferða meiri. Það virkar nákvæmlega eins og að segja stöðugt við sjálfan sig „ekki hugsa um appelsínu, ekki hugsa um appelsínu!“ og hvað gerist þá? Appelsínan yfirgnæfir hugann og flækjist fyrir okkur. Í staðin fyrir að leyfa sér að hugsa um appelsínuna, samþyggja hana og velta henni aðeins fyrir sér, skilgreina hana og reyna að skilja afhverju hún sækir svona á hugann. Gera okkur grein fyrir því að hún má alveg vera þarna, vita af henni. Þá sækir hún ekki eins á okkur. Því þá kemur hún upp og svo bara fer hún og eitthvað annað tekur við.
(Mjög einfaldað dæmi)

Við fáum öll verkefni og reynslu á lífsleiðinni sem við kærum okkur misvel um og getur oft á tíðum reynst okkur átakanlegri en orð fá líst. Allt þetta á að kenna okkur eitthvað, það má draga lærdóm af öllu sem nýtist okkur og jafnvel öðrum á einn eða annan hátt. Gott er að minna sig á að við höfum alltaf valið um það hvort að verkefnin sem okkur eru gefin geri okkur bitur eða betri, brjóti okkur eða bæti og hvort við verðum að fórnarlambi eða sigurvegara. Ábyrgðin er alltaf í okkar eigin höndum.

lego-stronger-small.jpg

 

Týnd í draslinu!

consumerism-titlea

Jæja ég ætla bara að segja það.. láta flakka.
Ég hef verið í þvílíkri baráttu með sjálfa mig. Sumir hafa eflaust skynjað það og aðrir jafnvel ekki haft hugmynd um það. En ég var alveg að farast! Farast úr þunglyndi og kvíða. Meiri viðbjóðurinn sem það nú er. Það var eins og það væri alltaf skuggi og þung þoka yfir öllu saman. Eitthvað sem sogaði allann kraft úr manni og fyllti mann af þvílikri vanlíðan og ótta. Þó ég ætti allt til alls, yndislega fjölskyldu, vini, dásamleg börn, góðann mann og bjó við drauma aðstæður þá var vonleysið farið að éta mig upp til agna.

Það var orðið þannig að ég sá ekki lengur tilgang í neinu sem ég gerði og fannst allt sem ég tók mér fyrir hendur vera svo illa gert og aldrei nóg, sama hvað ég reyndi. Þannig að mér fannst ég alveg geta hætt að reyna. Ég var komin skuggalega nálægt að því að fara héðan fyrir fullt og allt. Þetta var svolítið eins og að vera dáleidd, eins og það væri eitthvað sem hvíslaði stöðugt að mér, með svo sterkri sannfærandi rödd, að það eina sem nú væri hægt að gera til að losna undann sársaukanum væri að binda enda á þetta allt saman. En guði sé lof fyrir að svo varð ekki. Það er eitthvað sem að bara má ekki!

Það sem að raunverulega þurfti að gera var að breyta til. Því að greinilega var eitthvað hjá mér sem var alls ekki að virka fyrir mig. Svo ég byrjaði að reyna að finna út úr því hvað það væri sem ýtti undir vanlíðan og þunglyndið hjá mér. Það var erfitt að ætla að geta bennt á eitthvað eitt sem átti að vera sökudólgurinn fyrir þessu öllu saman og halda að þetta myndi lagast þegar búið væri að gera út um hann. Þetta átti sér nefnilega svo langa sögu og var svo margþætt. Maður þarf að byrja á byrjun og kafa alveg í grunninn. Vinna rétt úr draugum fortíðar til að geta losað sig við þá. Því að maður getur ekki byrjað á næsta kafla í lífinu ef maður er stöðugt að lesa þá fyrri. Ég fór að finna mér leiðir, sem virkuðu fyrir mig, til að vinna úr allskonar uppákomum fortíðarinnar. Það má örugglega segja að ég hafi farið að hlusta betur inn á við og fylgja innsæinu. Fá það til að toga mig áfram og vísa mér veiginn í þessu ferli. En til að geta hlustað betur á innsæið þá þurfti ég líka að vinna í því að tengjast mér betur. Finna mig.

Þegar maður er með fjölskyldu, börn, maka, heimili og á vinnumarkaðnum þá er erfitt að gefa sér tíma fyrir sig. Já og jafnvel þó að fólk sé ekki með fjölskyldu og heimili til að hugsa um. Ef það er mikið að gera og í mörgu að snúast, stöðugt áreiti frá mörgum áttum. Meirað segja bara tæknin á í sinn hlut, sjónvarpið, talvan og síminn. Þetta hrærir allt svo í manni og hraðinn er svo mikill. Áreitið og stöðug pressa um að vera svona eða hinnsegin og fullkomin á öllum sviðum grefur undann okkur og við týnum sjálfum okkur og missum sjónar á því sem skiptir okkur raunverulega máli.
Sem erum við sjálf og fólkið í kringum okkur.  Við erum farin  að eyða svo miklum tíma í dauðu hlutina. Allt draslið sem safnast upp á heimilinu er orðið svo mikið að það flæðir um allt, dótið og draslið, rafmagnstækin og fatafjöllin sem eru svo stór að maður sér ekki framm á að ná í botninn á óhreinatauskörfunni í þessu lífi, hvað þá í því næsta. Þannig að við erum stöðugt að keppast við að halda utan um dauðu hlutina sem við sannfærum okkur stöðugt um að við þurfum að kaupa og kaupa meira og meira af. Svo er það pressan um að hafa allt fullkomlega glansandi flott og lang lang best. Og einmitt þetta er það sem er að ganga frá okkur.. skilar okkur litlu sem engu.

Það sem að við þurfum virkilega að gera er að finna hvað þjónar veröldinni og okkur sjálfum. Er það neyslubrjálæðið? Að geta keypt ALLT handa börnunum okkar? Eignast allt það nýjasta? Það að enn einn omagio vasinn eða iitala kertastjakinn sé kominn í hilluna inni í stofu eða það að geta gengið í dýrum og flottum fötum? eða er það þegar við lærum að eiga notalega stund með sjálfum okkur, rækta sjálfið og líða vel í eiginn skinni, finna frið og ró innra með okkur og geta yfirfært það til barnanna okkar og þeirra sem eru í kringum okkur?

Við þurfum nefnilega að fara að passa okkur. Það sem að ég er að reyna að segja með þessu öllu saman er að við erum upp til hópa að farast úr streitu, þunglyndi, kvíða og vanlíðan. Það sem að veldur því er eflaust margþætt. Það sem ég held að sé afgerandi og sé kannski rótin í þessu er að við höfum týnt sjálfum okkur í öllu þessu brjálæði. Við hættum að gera okkur grein fyrir hverju við stöndum og hvaða hlutverki okkur er ætlað hér á jarðkúlunni og missum tengslin við okkur sjálf.. og þar af leiðandi spretta upp andleg veikindi.
Og hugsunarhátturinn flýtur með, við verðum snillingar í að rækta með okkur neikvæðar hugsanir sem að eru alltaf að skjóta upp kollinum, því við grípum þær og hlúum að þeim þannig að þær vaxa og vaxa.

Við þurfum að læra að verða meðvituð um þessar neikvæðu hugsanir og sjá hvað þær eru mikið eitur. Við þurfum að breyta til. Við þurfum að fara að grafa upp jákvæðar hugsanir í staðin og læra að velja þær frammyfir hinar og finna hvað það gerir ótrúlega mikið fyrir okkur.

Þegar ég finn að ég er að sogast aftur inn í þungar hugsanir og þunglyndið gerir vart við sig, þá finnst mér besta meðalið við því að stoppa mig af og byrja að telja upp allt sem ég er þakklát fyrir, eins mikið og ég get. Þá smátt og smátt byrjar að skína svo góð tilfinning inn í mér og ég held áfram að styrkja hana með því að fara svo yfir í að minna mig á margt sem ég geri vel og horfa hvar styrkleikar mínir liggja. Oft getur líka smá spjall haft ótrúlega góð áhrif. En ég tel það líka algjöra nauðsyn að fá tíma fyrir sig og gera eitthvað sem maður elskar að gera.

Ég er komin vel á veg en það er samt langt í land. Þetta er langtíma verkefni og ég tek kannski tvö skref áfram og svo þrjú aftur á bak, svo næst eitt skref áfram og svo kannski þrjú í viðbót, eitt aftur á bak og svo fjögur áfram. Þetta er svo allskonar. En svo dýrmætt og stórfenglegt þegar á líður og þegar þetta jákvæða, góða og yndislega fer að vera mikið meira til staðar heldur en þetta neikvæða.

Það er enginn síðri en nokkur annar fyrir að ganga í gegnum sálræn veikindi.. og það er eflaust svo miklu meira af frábæru og einstöku fólki sem hefur gengið í gegnum veikindi af einhvers skonar sálrænum toga, eða er jafnvel að eiga við það núna, án þess að hafa látið það í ljós  eða segja nokkrum frá því. Því það er alltaf þessi ótti um fordóma.. Sem okkur tekst með tímanum að vinna á bug. Því fordómar eru ekki annað en fáfræði og við erum dugleg að vinna að því að auka skilning á sálrænum/andlegum málum. Mig langar til að við förum að hætta þessum feluleik.

Með þessa reynslu er ég alveg jafn frábær og flott. Mitt markmið er að geta hjálpað öðrum og nú bætist þessi dýrmæta reynsla við hjá mér og getur gefið mér töluvert betri skilning á aðstæður annarra því ég þekki þær af eigin raun.

Ég stend mig ótrúlega vel og held alltaf áfram að vera dugleg að leita mér leiða. Því mín skoðun er sú að þetta er allt undir mér komið. Ábyrgðin er alltaf mín. Það er bara ég sem get stuðlað að eigin bata. En ég meina það samt ekki þannig að ég þurfi ekki aðstoð. Það er nauðsynlegt að leita til vina, fjölskyldu, ráðgjafa, sérfræðings, í bækur, á námskeið og lengi mætti telja. Maður þarf að finna sér leið sem virkar fyrir sig og jafnvel prófa margt áður en maður finnur það sem virkar almennilega og það þarf að huga að því alla ævi. En það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að þú ferð ekki bara til læknis, sérfræðings eða einhvers og ætlast til að hann eða hún lækni þig. Það virkar ekki þannig. Þú þarft að opna þig fyrir ráðfæringum, verkefnum og vinnu sem þú sjálf/sjálfur þarft að vinna og hafa fyrir til að taka skrefin í átt að bata. Í gegnum tíðina hef ég getað nýtt mér margskonar leiðir eins og t.d. talað við fólkið mitt, sálfræðinga, fengið uppbyggingu í kvennaathvarfinu, farið á meðvirkni námskeið, hugræna atferlismeðferð, kvíðameðferðastöðina, lesið bækur, lært gjörhyggli, hugleiðslu og farið til lífstílsráðgjafa.

Batnandi mönnum.. já og konum! er svo sannarlega best að lifa!! Því öll reynsla getur verið okkur dýrmæt ef okkur tekst að nýta hana rétt og auka persónulegt innsæi og innri styrk.

what-im-looking-for-is-within-me

Elskar þú þig ?

be-yourself-facebook-cover-timeline-banner-for-fb

Það er ekkert sem heldur okkur eins mikið aftur og okkar eigið óöryggi.
Margir eru svo hræddir við að vera of skrítnir eða furðulegir en málið er það að við eigum að tileinka okkur okkar eigin furðuleika. Það er til alveg nóg af „venjulegu“ fólki. Það má segja að við séum að vanvirða og svíkja veröldina sem skapaði okkur ef við erum ekki eina sanna útgáfan af okkur sjálfum og sinnum ekki því hlutverki sem okkur er ætlað.
Það þurfa ekki allir að skilja okkur og við þurfum ekki endilega að skilja alla hina. Við meigum vera jafn ólík og við erum mörg, svo lengi sem við erum ekki að valda neinn skaða og við þurfum að minna okkur reglulega á að sýna okkur og öðrum mildi og virða þær ólíku leiðir sem hver og einn kýs að fara.

Við þurfum að losa okkur við streituna og kvíðann sem kemur frá því að rembast við að vera samþykkt af öllum öðrum. Við eigum ekki að þurfa að eltast við samþykki annarra, eina sem það gerir er að eitra fyrir okkur og ýta undir kvíða og ótta um að vera aldrei nóg. Þessi stöðugi samanburður og ótti fær okkur til að finnast við aldrei vera að gera neitt nógu gott vegna þess að við erum allt of upptekin af því hvað öðrum finnst og náum ekki tengingu við okkur sjálf og sjáum ekki hvar styrkleikar okkar liggja eða hvaða hlutverk það er sem okkur er ætlað.

Eina manneskjan sem þarf að skilja þig og samþyggja þig nákvæmlega eins og þú ert.. Það ert þú sjálf/sjálfur! Og þegar það tekst, þá fara dásamlegir hlutir að gerast. Púslin fara að raðast rétt saman.

Því það er bara þannig að sama hvað við reynum mikið að passa inn hjá öðrum, þá mun okkur aldrei finnast við vera nóg. Þannig að við getum alveg eins bara verið við sjálf og staðið upp úr, lært að meta okkur alveg frá grunni og vera sjálfum okkur og öðrum sönn. Því einmitt það veitir okkur lífsfyllingu.

Finndu þinn eiginn ættbálk í staðinn fyrir að reyna að troða þér inn í þann sem þú átt ekki heima í..
Þetta er svolítið eins og að troða sér í of litla og þrönga skó sem passa ekki en þú ákveður samt að ganga í þeim. Þeir eru svo flottir og allir hinir eiga svona skó en þér mun aldrei líða vel í þeim, þú getur engann veginn notið þín og þú finnur til. Þetta er alveg eins ef þú ert ekki sönn/sannur sjálfum þér og ferð leiðir sem að þjóna þér engum tilgangi eða reynir að fylgja einhverri uppskrift sem fjölskyldan þín, vinir, samfélagið eða aðrir þrýsta á þig til að fara eftir, hvort sem það sé meðvitað eða ómeðvitað.

Við þurfum að leyfa okkur einfaldlega bara að vera.. og ryðja okkar eigin leið, fylgja innsæinu, tengja við fólk sem er á sömu hillu og gefur okkur innblástur. Leyfðu þér að finna hvað það er í raun mikið af fólki þarna úti sem mun falla fyrir þér ef þú ert eina sanna útgáfan af þér.

images (2)

RaunInnGlansÚt

Skemmtilegt viðtal 😉

http://bleikt.pressan.is/lesa/sonja-osk-velur-raunveruleikann-fram-yfir-glansmyndina-a-samfelagsmidlum/

12022006_10153091726883045_1819090440_n

Opnum Augun

abuse1

Mig langar mjög til að taka upp umræðu um andlegt ofbeldi. Það er búið að hanga yfir mér lengi að koma því hérna að en mér fannst ég frekar EIGA að skrifa um eitthvað meira hressandi.. een ekkert nógu sprikklandi hresst hefur viljað komast á framfæri og það hefur svo sannarlega ekki verið hlaupið að því að gefa sér tíma til að koma einhverju á blað. En nú ætla ég að koma þessu frá mér svo annað fái að komast að.

Ástæðan fyrir því að mig langar til að ræða þetta málefni er sú að andlegt ofbeldi er verulega flókið og hættulegt fyrirbæri sem er erfitt að skilja og átta sig á. Oftar en ekki myndar fáfræðin fordóma í garð þess sem við ekki þekkjum. Ég verð víst að játa mig seka í þeim efnum. Einu sinni kom það fyrir að ég hugsaði: „Andlegt ofbeldi? Það er nú bara enn einn tilbúningurinn til að fá að vera í einhverju volæði!“ Já, ég var víst ekki vaðandi í vitinu þann daginn. Ég kynntist þessu svo betur af eigin raun.

Mín von er sú að með þessari lesningu fái fleiri aukinn skilning á andlegu ofbeldi. Líka að einhver sem er að ganga í gegnum svona ferli fái smá „hinnt“ og fari smátt og smátt að opna augun fyrir baneitruðum aðstæðum sem vert er að koma sér úr, þó það krefjist mikillar vinnu.

Þegar ég var í sjúkraliðanáminu átti ég meðal annars að skrifa lítið heimildarverkefni um meðferðarúrræði. Af persónulegum ástæðum langaði mig til að fjalla um meðferðarúrræði og uppbyggingu eftir andlegt og líkamlegt ofbeldi. Í þessari oggu ponnsu litlu ritgerð gaf ég mér það bessaleyfi að útskýra stuttlega hvernig ofbeldið á til með að virka fyrir sig og hvers skonar áhrif það getur haft á líkamlegt og andlegt heilbrigði. Öllu þessu er lýst í eins fáum orðum og mögulega var hægt, þar sem að verkefnið átti að vera lítið og stutt. Ég tók saman heimildir sem mér fannst lýsa minni upplifun og reynslu á ofbeldi til að koma því í sem bestan skilning, því það virðist sem að fólk er oft ekki að ná því hvers konar fjandi þetta getur verið.

Ég læt ritgerðarverkefnið fylgja með. Þetta er víst enginn hviss bang búið lestur! En þetta eru samt sem áður sára fáar blaðsíður með myndarlegu línubili og ég vona af öllu hjarta að sem flestir gefa sér smástund til að renna í gegnum þetta 😉

Ritgerðin => Ofbeldi-Ritg.Hjú503

Þegar afi féll fyrir eigin hendi

562557-bigthumbnail
Núna 10. September var Alþjóðadagur sjálfsvígsforvarna. Eins og gefur til kynna er þetta dagur tileinkaður forvörnum vegna sjálfsvíga víða um heim og hér á landi er hann einnig helgaður minningu þeirra sem hafa fallið af eigin hendi.
Þar sem að þessi dagur var núna um daginn þá langar mig til að koma frá mér stuttri sögusögn frá þeim degi sem afi minn tók eigið líf, þegar hann var 65 ára gamall.

Það var maí árið 2008. Ég man..
Ég var að koma úr sturtu þegar ég heyri mikil læti í sjúkarbíl. Ég vafði utan um mig handklæðið í flýti, dreif mig framm og kíkti út á pall. Þáverandi kærasti minn og Gaui bróðir fylgdu fast á eftir. Sjúkrabíll og lögreglubílar brunuðu framhjá götunni okkar með látum og þutu upp á litla Hamar.
Ég varð óttaslegin og það fór um mig hrollur. Hvað var í gangi?
Við stóðum þarna úti, horfðum á eftir bílunum og komum síðan auga á það. Það hafði farið bíll niður af kambabrúninni.
Ó Guð! Ætli þetta sé einhver sem ég þekki? Í stressi hringdi nokkur símtöl til að athuga hvort að það væri ekki örugglega í lagi með fólkið mitt.
Það leit út fyrir að svo væri.
Ég fer inn í innsta herbergið í húsinu til að sjá betur það sem hafði gerst. Það var erfitt að sjá almennilega hvað var í gangi. Ég tók kíkinn sem var inni i stofu. Það var dökkblár eða svartur bíll í klessu fyrir neðan kambana. Ég gat ekki séð hvernig bíll þetta var. Sem betur fer kannski.

Það fór ónotaleg tilfinning um mig alla en ég ákveð að klæða mig því ég ætlaði mér að fara út í búð að kaupa eitthvað að borða. Mamma og pabbi voru úti á Spáni svo að það var undir okkur systkinunum komið að sjá til þess að eitthvað ætilegt væri að finna í ísskápnum.
Það var grátt yfir öllu og smávægilegur úði þegar ég labba út í bíl. Ég sé Ólöfu, systir mömmu og manninn hennar Stjána labba í átt að húsinu okkar. Þau voru óvenju alvarleg. Ég heilsa þeim og sé svo að presturinn er með þeim.
Oh nei! Ég sný mér við og labba aftur inn. Ég finn kökkinn í hálsinum og veit að presturinn er kominn til að segja mér eitthvað slæmt.
Nú vissi ég að það sem gerðist í Kömbunum tengdist mér. Einhver sem ég þekki er dáinn. Ég labba inn í stofu og horfi á prestinn koma inn.
Hann snýr sér að kærasta mínum og segir honum að afi hans sé dáinn.
Ha? Það gat ekki passað! Hvaða vitleysa er þetta? Eftir óþæginlegann vandræðagang áttar presturinn sig á því að það var ekki rétt. Það var afi minn sem var dáinn. Það var hann sem hafði keyrt niður af kambabrúninni. Ég fann hvað ég dofnaði upp og hvernig gráturinn braust út. Ég hafði ekki hringt í hann áðan til að athuga með hann. Afhverju hafði mér ekki dottið hann í hug? Ég skammaðist mín fyrir það. Svo var það annað sem átti hug minn allann. Þetta var ekki slys. Ég fylltist reiði. Hvernig gat hann gert þetta!

Ég man að Ólöf tók utan um mig og ég hágrét. Restin af deginum var í móðu. Eldri bræður mínir og mágkonur mínar komu úr Reykjavík og voru okkur tvíburasystkinunum til halds og trausts. Mamma og pabbi áttu ekki flug heim frá Spáni fyrr en eftir nokkra daga og það gekk ekkert að flýta fluginu. Það var ótrúlega erfitt að hafa þau svona langt í burtu.

Presturinn bauð okkur að koma upp í kirkju, þar sem að við systkinin gátum verið með smá bænastund. Við löbbuðum saman inn í kirkjuna og ég sá að það stóð einhvers skonar sjúkraflutningarúm með hvítu yfirbreiddu laki við altarið. Það lá einhver undir lakinu. Það fór um mig kuldahrollur. Þetta var eitthvað svo óraunverulegt. Við settumst á einn kirkjubekkinn og ég man óskýrt hvað gerðist næst. En ég man þó að okkur var boðið að sjá hann og kveðja. En vorum vöruð við það að hann gæti verið svolítið marinn og illa farinn. Ég hafði það ekki í mér að kíkja undir lakið. Ég vildi frekar muna eftir afa eins og hann hafði alltaf verið.

Það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég sá hann síðast. Pólska konan var búin að búa hjá honum í einhvern tíma og hafði verið búin að taka húsið í gegn. Föt og hlutir frá ömmu voru farnir að hverfa. Við fjölskyldan vildum geta haldið í vissa hluti sem gáfu okkur tilfinningalegt gildi og minntu okkur á elsku ömmu. Eftir að hafa rætt það oft við afa létum við verða að því að sækja þá muni. Hann hafði sagt okkur að hann vildi það sjálfur.

Það var óþægilegur dagur, við höfðum kíkt við hjá honum til að sækja einhverja muni. Svo var komið að því að kveðja og ég man að ég horfði á afa. Hann settist niður og virtist finnast þetta erfitt. Ég átti svo oft erfitt með að skilja hann og hvað fór um hugann hans. Eftir að amma dó, þá var hann ekki eins afalegur lengur. Það var allt orðið svo óþæginlegt eitthvað. Hann drakk og reykti mikið, var kominn með pólska kærustu og stóð illa fjárhagslega. Ég horfði á hann þar sem hann sat og virtist vera orðinn útkeyrður á öllu saman. Ég hugsaði með mér hvort ég ætti bara að kveðja og fara út í bíl. En ég fann eitthvað svo til með honum. Ég gekk til hans og tók utan um hann og kvaddi hann. Svo sá ég hann aldrei aftur.

Dagarnir eftir að hann hafði tekið eigið líf voru svo sárir, það var svo mikið af spurningum sem vöknuðu og ég vissi að fengust aldrei svör við.
Ég fann fyrir mikilli reiði. Mér fannst hann sjálfselskur.
Ég var svo lengi reið og sár út í afa fyrir að hafa farið þessa leið. Mér fannst hann vera vondur við þá sem stóðu honum næst.

En eftir því sem árin hafa liðið finnst mér ég hafa náð betri skilning á þessu.
Ég sé það þannig að þegar fólk grípur til þessara aðgerða þá finni það fyrir algjöru vonleysi og hjálparleysi við óbærilegar aðstæður eða sálarkrísu. Hvort sem að þær eru langtíma eða skammtíma. Þá telji fólk að sjálfsvíg sé eina og fljótlegasta leiðin til að losna undan bugandi sársaukanum. Töfralausnin. Það sér ekki neina aðra leið. Heildarmyndin verður bjöguð og tímabundin, örvæntingafull þörf til að grípa til aðgerða getur þá beint sjónum til sjálfsvígs.

En sjálfsvíg er ekki lausn né valkostur, heldur endanlegt og banvænt. Sú sálarangist sem herjar á einstakling það augnablik sem að sjálfsvígshugsanirnar koma upp, munu vafalaust líða hjá eða minnka.
Því er nauðsynlegt að tala. Tala við góðan vin, skyldmenni eða fagfólk.
Hringja í hjálparsíma Rauða Krossins 1717 sem er opinn allan sólahringinn. Því lausnin felur í sér að binda enda á sársaukann með því að taka skrefið að bjartari framtíð. Halda baráttunni áfram og leita leiða með hugrekki. Það skiptir svo miklu máli, því sérhvert mannslíf skiptir máli.

Ég vill trúa því að afi væri enn á lífi í dag og hefði fengið tækifæri til að kynnast öllum fallegu langafabörnum sínum ef hann hefði leitað sér hjálpar. Ef hann hefði talað, þegið faglega aðstoð og fylgt henni eftir.
Hann átti við áfengisvanda að stríða og eflaust geðræn vandamál líka þar sem hann vann aldrei almennilega úr áföllum sem hann hafði lennt í yfir ævina. Hann var þröngsýnn og eflaust fordómafullur á sálfræðilegar lækningar. Það stóð í vegi fyrir honum.

Það er svo mikilvægt að taka skrefið, tala og losa um flækjuna sem hefur safnast innra með manni, finna trúna á bjartari dögum og þyggja aðstoð til að komast á rétta braut.